Frambjóðendur til stjórnar og trúnaðarráðs fyrir aðalfund 2021
Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Ég er ánægð með stöðu Samtakanna '78 eins og hún er í dag og stolt af þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum. Á síðastliðnum árum hefur tekist að koma í gegn mikilvægum réttarbótum samhliða því að stækka Samtökin ‘78 á ábyrgan hátt og byggja undir starfsemina þannig að hún mæti þörf samfélagsins betur. Undir minni stjórn hefur félagið lagt höfuðáherslu á að koma styrkum fótum undir grunnstarfsemi sína - þá sérstaklega fræðslu og ráðgjöf, en einnig félagsstarf og réttindabaráttu. Þá hefur verið haldið áfram með aukna fagvæðingu á hinum ýmsu sviðum.
Á síðasta ári opnuðum við m.a. glæsilega nýja vefsíðu, gáfum út 40 ára afmælisrit, hófum uppgjörsverkefni með Þjóðkirkjunni, kynntum skýrslu um líðan hinsegin barna og ungmenna í skólum, héldum málþing um lagalega stöðu hinsegin fólks á Íslandi, réðumst í nýyrðasamkeppnina Hýryrði 2020 og eignuðumst fjölda mánaðarlega styrktaraðila undir heitinu Regnbogavinir. Þetta, og margt fleira, var gert samhliða því að veita fjölbreytta þjónustu af alúð og sinna öflugri hagsmunagæslu og réttindabaráttu.
Umsvif Samtakanna ‘78 hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum og mikil ásókn er í þjónustuna. Á síðastliðnu starfsári hef ég sem formaður þess vegna lagt mikla áherslu á stefnumótun fyrir félagið, sem ég held að muni skila sér í skilvirkara og betra starfi.
Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78
Ég sat í trúnaðarráði árið 2015, var ritari í stjórn tímabilið 2018-2019 og hef svo verið formaður Samtakanna '78 síðan í mars 2019.
Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?
Mín framtíðarsýn fyrir Samtökin ‘78 felur í sér að við höldum áfram á sömu braut á næstu árum, með fastan fókus á grunnþættina í okkar starfi. Fyrst og fremst vinnum við markvisst eftir þeirri stefnu sem við höfum sett okkur, en hún verður kynnt á aðalfundi. Upphafsvinnan hefur þannig farið fram, en nú þarf að nýta þennan grunn sem aðstoð við forgangsröðun verkefna og sem leiðarljós í árlegri markmiðasetningu stjórnar og starfsfólks.
Þegar kemur að réttindabaráttu þá verðum við að halda áfram að ýta á bætt lagaumhverfi hér á landi. Félagslegt samþykki á hinsegin fólki er í hæstu hæðum á Íslandi ef miðað er við önnur lönd, en löggjöfin hefur setið svo lengi á hakanum að enn er mikið verk að vinna þrátt fyrir miklar réttarbætur undanfarin ár. Sérstaklega brýnt verkefni er lagaleg staða og aðbúnaður hinsegin hælisleitenda, því það á ekki að vera háð lögskýringum hvenær hinsegin manneskja telst í viðkvæmum hópi og hvenær ekki. Þá þarf fylgja vel eftir þeim réttarbótum fyrir trans og intersex fólk sem hafa náðst á síðastliðnum árum, því það sem löggjöf verður á endanum að gera er að skila sér út í samfélagið í formi bættra lífsgæða. Við megum heldur aldrei verða værukær þegar kemur að félagslegu samþykki í okkar garð, heldur vinna að því að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst - og gera betur.
Á næstu árum tel ég síðan sérstaklega mikilvægt að Samtökin ‘78 haldi vel utan um sjálfboðaliða sína og hlúi að þeim. Það þarf að taka skref til þess að auka samheldni meðal allra sem starfa fyrir Samtökin ‘78, óháð því hvort viðkomandi sér um opin hús, situr í stjórn eða er sjálfboðaliði í félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar. Það er svo ótrúlega verðmætt fólk sem er í sjálfboðastörfum fyrir Samtökin og mér finnst skipta máli að við fáum tækifæri til að kynnast. Einnig sé ég fyrir mér að stjórn leiti ráðgjafar um helstu stefnumál sín í meira mæli til bæði þeirra sem hafa starfað fyrir Samtökin áður og til þeirra ungmenna sem sækja félagsmiðstöðina.
Langmikilvægast er þó að Samtökin hafi samstöðu og sýnileika hinsegin samfélagins að leiðarljósi í allri sinni vinnu og eigi í góðu samtali við alla þá hópa sem þeim tilheyra, sem og tengda hópa og önnur mannréttindasamtök. Samtökin ‘78 eru félag alls hinsegin fólks á Íslandi. Þess vegna verðum við að vera sameinandi afl, því saman berjumst við best fyrir réttindum okkar allra.
Það hefur verið mér mikill heiður að vera formaður Samtakanna ‘78 síðastliðin tvö ár. Ég vona að ég njóti trausts félagsfólks til þess að leiða Samtökin áfram á næsta starfsári.
Örlítið um þig: T.d. fjölskylduhagir, menntun, reynsla af vinnumarkaði og/eða félagsstörfum
Ég er 31 árs tvíkynhneigð sís kona, kvænt Silju Ýr S. Leifsdóttur og á með henni tvö börn sem eru eins og hálfs árs og fimm ára. Ég er málfræðingur að mennt, lauk BA-prófi í almennum málvísindum frá HÍ 2015 og meistaraprófi í málvísindum frá háskólanum í Leiden í Hollandi 2017.
Ég hef gegnt hinum ýmsu störfum í gegnum tíðina, verið kassastarfsmaður, sinnt ummönnun aldraðra, verið barþjónn, móttökustarfsmaður á hóteli og flugfreyja. Frá útskrift úr málvísindanáminu hef ég starfað sem rannsóknarmaður og doktorsnemi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, en hóf í loks árs 2019 störf við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði þar sem ég kenni íslensku á unglingastigi. Þá sit ég einnig í menningar- og safnanefnd Garðabæjar.
Samhliða námi og vinnu hef ég alla tíð tekið virkan þátt í félagsstörfum og átt sæti í stjórnum Skólafélags MR, Mímis – félags stúdenta í íslenskum fræðum, Ungra jafnaðarmanna og Garðabæjarlistans. Ég var fyrst kjörin í stjórn Samtakanna ’78 á aðalfundi 2018.
Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Staða samtakanna í dag er góð. Gengið hefur vel að tryggja fjármagn til næstu ára og við stöndum vel að vígi með ýmis verkefni. Þar má sérstaklega nefna ráðgjafaþjónustuna og Hinsegin félagsmiðstöðina
Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78
Ég hef verið í trúnaðarráði síðustu 2 ár og núna síðasta ár sem áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs í stjórn. Ég hef líka tekið þátt í starfinu sem jafningjafræðari og haldið fyrirlestur um sögu Stonewall óeyrðanna á vegum Samtakanna.
Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?
Á næstu þrem árum tel ég að mikilvægt sé að fylgja eftir þeim réttarbótum sem unnust með kynrænu sjálfræði með því að fylgjast með því hvernig framkvæmd laganna verður.
Einnig tel ég mikilvægt að styrkja samband Samtakana '78 við grasrót hinsegin samfélagsins og halda áfram að byggja brýr milli ólíkra hópa og kynslóða innan félagsins.
Síðast en alls ekki síst tel ég mjög mikilvægt að fara í uppbyggingarstarf þegar kemur að félagslífi á vegum Samtakanna '78 þar sem við höfum öll einangrast töluvert í Covid faraldrinum.
Örlítið um þig: T.d. fjölskylduhagir, menntun, reynsla af vinnumarkaði og/eða félagsstörfum
Ég er sagnfræðingur að mennt og starfa núna sem sérfræðingur á Landsbókasafni Íslands- Háskólabókasafni. Ég hef unnið ýmis störf áður samhliða námi, meðal annars sem leikskólaleiðbeinandi og sem rannsakandi í hinsegin sagnfræðirannsókn. Ég er í sambúð og barnlaus.
Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Samtökin 78 eru vel þekkt, virt og mikilvægt samtök sem þjóna svo stórum og mikilvægum tilgangi í okkar samfélagi, sem og fordæmi og áhrif til annara landa. Hérlendis hefur réttinabarátta alls hinsegin fólks á Íslandi verið meira áberandi og stækkandi, þökk sé Samtökunum 78 og fallega regnbogans samfélaginu okkar hér.
Á síðastliðnu ári hafa Samtökin náð í gegn svo ótrúlega flottum frumvörpum á alþingi í þágu intersex fólks, transfólks og hinsegin foreldra. Samtökin hafa tryggt sér fjármagni með nýlegum samning við ríkisstjórn Íslands, sem mun gera framgang margra mála Samtakanna auðveldari og óneitanlega koma Samtökunum vel að notum!
Og svo auðvitað stofnun hinsegin félagsmiðstöðvar, sem hefur tryggt öryggi barna og unglinga til að tjá sig til fulls og finna sig og miklið sitt í öruggu rými, sem ég tel vera svo ótrúlega fallegt, jákvætt og tímabært skref! Ég tel að með þessu áframhaldi muni Samtökin 78 gera Ísland að einu öruggasta og besta landi fyrir hinsegin fólk.
Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78
Í fullri hreinskilni þá hef ég því miður lítið verið virkur, fram að þessu og mig langar að breyta því. Vegna þeirra skelfilegra atburða sem hafa verið að eiga sér stað í löngum í kring og víðsvegar, sér maður hversu viðkvæmt lýðræðið er og hversu mikilvægt það er að standa vörð um mannréttindi. Að nota röddina fyrir þá sem fá ekki eða ná ekki að láta í sér heyra, að vekja athygli á því sem er að eiga sér stað og að vekja athygli á því að við getum haft áhrif á umhverfið okkar, saman. Við eigum öll rétt á að vera til og að vera við sjálf, eins og við erum.
Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?
Þrátt fyrir öryggi og friðsæld hér samanborið við önnur ríki, þá lýkur hagsmunagæslu aldrei. Það er mikilvægt að standa vörð um það sem er þegar komið í höfn samtímis því að vera ná í gegn frekari breytingum til hins betra. Öryggi er mikilvægur þáttur í lífi allra og öryggi hinsegin fólks í skólum, fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, og almennt í samfélaginu ber að styrkja enn frekar og berjast fyrir öllu því sem hægt er, lagalega séð, svo að í náinni framtíð þurfi Samtökin 78 aðeins að hlúa að hagsmunagæslu hinsegin fólks. Mig langar að tryggja samtal og traust til þess að viðhalda einingu og samheldni innan fallega og fjölbreytta regnboga Samtakanna 78.
Örlítið um þig: T.d. fjölskylduhagir, menntun, reynsla af vinnumarkaði og/eða félagsstörfum
Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Ég ólst upp hjá einstræðri móður minni ásamt eldri bróður mínum, ég er yngsti bróðirinn af þremur en elsti bróðir minn ólst upp á fósturheimili mest megnis æsku sinnar þar til hann varð 18 ára og flutti heim til okkar. Pabbi var lítið sem ekkert inní myndinni, hann býr á hippa kommúnu í Danmörku og hefur verið þar lengst af. Mamma var algjör stoð og stytta og mikil hetja í mínu lífi, kærleiksrík með mikla réttlætiskennd, og er það þaðan sem ég fæ mína réttlætiskennd. Því miður þá átti hún við áfengisvandamál að stríða og olli það oft mikilli óvissu og slæmu ástandi í æsku. Hún lést af sjúkdómi sínum 2019. Blessunarlega á ég mína kærleiksríku bræður og erum við ótrúlega nánir.
Ég lærði í nokkur ár í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og var á tungumálabraut þar. Ég hinsvegar kláraði ekki námið vegna þess að ég þurfti að fara vinna til að geta séð fyrir sjálfum mér og haldið þaki yfir höfðinu. Ég hef unnið margskonar störf í gegnum ævina og byrjaði að vinna í grunnskóla. Ég vann ýmist við ræstingar, ég var barþjónn, receptionist, þjónn, barista og svo var ég flugþjónn í fimm ár. Á tímum covid þegar flugið snarstöðvaðist þá nýtti ég tækifærið og skráði mig aftur í nám og er að klára núna í vor frumgreinadeildapróf hjá Keili, á Félags- og lagavísindadeild.
Þó ég hafi ekki alltaf fengið þann tíma til að mennta mig fram að þessu eða sinna félagsstörfum að þá hefur lífið verið mín mesta reynsla og lærdómur. Frá minni eigin æsku og lífi og þeim tækifærum sem ég hef fundið í þeim störfum sem ég hef verið í. Ég hef lengi sagt að þjónustustörf séu frábær mannfræði námsgrein til að fá betri skilning á mismunandi mannlegri hegðun og að læra nota tilfinningagreind. Það er ekki alltaf allt á bókina lært, svo ég tel mig svo lukkulegan fá skilning fyrir sjálfum og hæfnina í að geta sett mig í spor annara. Tala nú ekki um að vera læra núna á bókina líka!
Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna '78 í dag og þeim verkefnum sem unnið hefur verið að á síðustu árum?
Staða Samtakanna '78 í dag er gríðarlega góð að mínu mati. Nýlega landaði félagið nokkrum samningum þ.á m. við forsætisráðuneytið sem að tryggja rekstur félagsins næstu árin. Ég fagna því og fagna jafnframt nýjum þjónustusamningi við Grindavík, vonandi verða slíkir samningar ennþá fleiri á næstu árum.
Undanfarið eitt til tvö ár hefur félagið greinilega tekið sig á í hönnunar- og kynningarmálum sem sést greinilega á nýrri vefsíðu félagsins ásamt samfélagsmiðlum þess. Stór hluti af hinsegin baráttunni er aðgengileiki og sýnileiki og tel ég þetta hafa verið stórt skref í rétta átt að því að Samtökin '78, þjónusta félagsins og fræðsla sé aðgengilegust sem flestum.
Þá hefur Hinsegin félagsmiðstöðin blómstrað sem aldrei fyrr, forstöðukona hækkað í hlutfalli og tveir fastir starfsmenn bæst við á opnanir. Hinsegin félagsmiðstöðin er best sótta félagsmiðstöð landsins þar sem oft mæta fleiri en 100 unglingar á hverja opnun og ég tel hana vera með því mikilvægasta sem Samtökin '78 gera.
Annars er líka bara frábært að sjá hversu margar fræðslur er búið að fara í, stækkun ráðgjafarhópsins og allt annað sem félagið hefur verið að gera snilldarlega vel undanfarin ár
Hvaða störf/verkefni hefur þú tekið virkan þátt í innan Samtakanna '78
Ég hef sinnt ýmislegu innan Samtakanna '78 undanfarin ár.
Til að byrja með þá byrjaði ég í Hinsegin fræðslunni árið 2015 og var að fræða til lok árs 2019.
Árið 2016 var ég kjörin í trúnaðarráð og fór þaðan upp í stjórn í byrjun árs 2017 vegna forfalla. Ég bauð mig tvisvar sinnum fram aftur til stjórnarstarfa og sat samfleytt í stjórn félagsins frá janúar 2017 - mars 2019. Á meðan stjórnarsetu minni stóð gegndi ég stöðu ritara, alþjóðafulltrúa og meðstjórnanda.
Þá vann ég í Hinsegin félagsmiðstöðinni fyrri helming ársins 2020 sem félagsmiðstöðvarstarfsmaður.
Hver er þín framtíðarsýn á starf Samtakanna '78 næstu 3 ár og hvaða verkefni finnst þér mikilvægast að ráðast í eða viðhalda?
Næstu þrjú ár vil ég sjá Samtökin '78 stækka enn meira, halda enn fleiri viðburði og taka ennþá meira pláss í samfélaginu en áður.
Sú þjónusta sem Samtökin '78 bjóða upp á í dag er svo frábær; fræðslan, félagsmiðstöðin og ráðgjöfin eru allt snilldartól fyrir hinsegin fólk og ég vona að félagið haldi áfram að rækta þessa þjónustu líkt og hefur verið gert undanfarin ár.
Sem ung hinsegin manneskja þá vil ég sjá meira pláss fyrir ungt hinsegin fólk innan Samtakanna '78. Hinsegin félagsmiðstöðin sinnir frábæru starfi þegar kemur að þessum málum hjá hinsegin börnum (undir 18) en það er enn skortur á félagsskap fyrir ungt hinsegin fólk, 18 ára og eldri, sem er að stíga sín fyrstu skref innan hinsegin samfélagsins. Félagsskapurinn HinUng hefur verið til undanfarin ár en starfsemin hefur verið stopul. Ég vil sjá meiri stuðning við þá sem vilja skapa slíkan félagsskap fyrir ungt fólk enda gæti verið að þau séu með minni reynslu en aðrir í slíkri skipulagningu og vanti aðstoð.
Svo er mín draumsýn er að húsnæðismál félagsins skáni þar sem mygla er á Suðurgötunni. Ég sé fyrir mér að Samtökin '78 komi sér fyrir í húsnæði sem geti jafnframt verið einsskonar félagsmiðstöð hinsegin fólks (ekki bara unglinga!) þar sem er alltaf pláss fyrir félaga til að koma og hittast í kaffi, aðildarfélög að koma og vinna verkefni og áhugasama að stinga inn nefinu til að kynnast þeirri frábærru starfssemi sem félagið heldur úti. Ég veit að það er kannski ekki raunhæft að þessi draumsýn rætist á næstu þremur árum en ég vona að það verði tekin skref í áttina að henni.
Þetta var bara smá dæmi, ég gæti skrifað heila bók um hluti sem mér finnst mikilvægt eða bara gaman að Samtökin geri. Ég vona bara að ég hljóti traust félagsmanna til þess að sjá þeim öllum fylgt eftir.
Örlítið um þig: T.d. fjölskylduhagir, menntun, reynsla af vinnumarkaði og/eða félagsstörfum
Ég er 20 ára félagsmiðstöðvarstarfsmaður úr Kópavogi. Ég lauk nýverið B.A. gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og stefni á meistaranám í eitthverju skemmtilegu í haust. Þá er ég líka með diplómagráðu í Kínversku frá HÍ.
Ég vinn í félagsmiðstöð í Grafarvogi og einnig hjá skátafélaginu Ægisbúum í Vesturbæ. Skátarnir eru stór hluti af mínu lífi enda bæði vinnan mín og helsta áhugamál. Ég reyni að fara sem oftast í útilegur og fjallgöngur, og ef ég er upptekin þá er það sennilega vegna þess að ég er á skátafundi.
Ég hef frá unglingsaldri verið mjög virk í félagsstörfum hvort sem það voru hin ýmsu ungmennaráð, skátarnir, nú eða Samtökin '78. Ég brenn fyrir ungmennalýðræði og að ungt fólk séu virkir þátttakendur á öllum sviðum samfélagsins.
Eftirtöld eru frambjóðendur í trúnaðarráð
Daníel Gunnarsson
Embla Dofra
Hrafnhildur Lára Hafþórsdóttir
Kristín Ástríður Ásgeirsdóttir
Ragnar Pálsson
Rakel Glytta Brandt
Sigríður Ösp Elinborgardóttir Arnarsdóttir
Sigtýr Ægir
Sindri Mjölnir Magnússon
Þórhildur Sara Sveinbjörnsdóttir